Arnarskóli

Útskrift eða tilfærsla nemenda

  1. /
  2. Um Arnarskola
  3. /
  4. Skipulag
  5. /
  6. Skýrslur og áætlanir
  7. /
  8. Útskrift eða tilfærsla nemenda

Útskrift eða tilfærsla nemenda

Eigi síðar en í 9. bekk skal hefja vinnu við tilfærsluáætlun eins og lýst er í reglugerð nr. 585/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskólum. Í áætluninni skal vera skýrt hvernig staðið verði að vali á framhaldsskóla/grunnskóla og hvernig valmöguleikar verða kynntir. 

Við allar útskriftir, bæði að loknu grunnskólanámi og við tilfærslu nemenda frá Arnarskóla í aðra grunnskóla, gildir eftirfarandi: 

  • Öllum nemendum Arnarskóla kemur til með að fylgja eintaklingsnámskrá síðasta skólaárs, skýrsla um styrkleika og þarfir nemandans, sem og greinagerð um hvernig staðið er að aðlögun umhverfis og hvernig komið er til móts við þarfir nemandans svo honum líði sem best og fái notið styrkleika sinna.  
  • Við gerð skýrslunnar skal leitast við að fá álit nemandans, foreldra/forráðamanna og annarra sérfræðinga sem koma að vinnu með nemandanum. 
  • Áður en til útskriftar kemur verður leitast við að nemandinn heimsæki þann móttökuskóla sem hann stefnir á. Fjöldi þeirra heimsókna og fyrirkomulag verður skipulagt í samstarfi starfsfólks Arnarskóla, nemanda, foreldra/forráðamanna hans og móttökuskóla. 

Tilfærsluáætlun

Þegar nemandi skiptir um skóla, fer í annan grunnskóla eða fer á næsta skólastig er gerð tilfærsluáætlun þar sem farið er yfir stöðu nemandans. Í Reglugerð nr. 585/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskóla og Reglugerð nr. 230/2012 um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum eru ákvæði um slíkar tilfærsluáætlanir. Þar er áhersla lögð á að taka heildstætt á stöðu nemandans, m.a. með það að markmiði að tryggja viðeigandi menntun í skóla eða framhaldsskóla, stuðla að virkri þátttöku í samfélaginu og síðar fyrir þátttöku í atvinnulífi. 

Tengill og fagstjóri fylla út eyðublað með almennum bakgrunnsupplýsingum um nemandann ásamt færni í bóklegu námi og  daglegum athöfnum, áhugasviði nemandans, hvaða leiðir í námi hafa virkað, hjálpartæki og lyf sem hann notar. Sagt er frá stuðningi sem nemandi hefur notið og hvaða aukaþjónustu hann hefur fengið, svo sem sjúkra-, iðju- og talþjálfun. Félagsfærni nemandans er lýst og einnig er sagt frá vonum hans og foreldra fyrir framtíðina. 

Foreldrar fara í heimsóknir að kynna sér mögulega skóla og velkomið er að óska eftir að starfsmaður Arnarskóla komi með í þær heimsóknir. Þegar skóli hefur verið ákveðinn sitja tengill og/eða fagstjóri fundi með viðtökuskóla og fara með nemanda og foreldrum í heimsóknir ef þess er óskað. Í reglum Arnarskóla um innritun og útskrift er gerð frekar grein fyrir tilfærsluferlinu yfir í annan grunnskóla:

  • Foreldrum/forráðamönnum er alltaf heimilt að flytja nemanda í annan grunnskóla. 
  • Ef nemandi, foreldrar/forráðamenn, fagteymi nemandans í Arnarskóla eða fræðsluyfirvöld í heimabyggð nemanda telja að betur verði komið til móts við hann í öðrum skóla skal fara fram mat í samvinnu fagteymis Arnarskóla og fulltrúa sveitarfélags.  
  • Ef foreldrar/forráðamenn, fagteymi Arnarskóla og fræðsluyfirvöld í heimabyggð nemanda eru sammála um að hag nemanda sé betur búið í öðrum skóla skal hefja vinnu við tilfærsluáætlun eins og lýst er hér að ofan.  
  • Alltaf skal leitast við að tilfærsla nemenda úr Arnarskóla sé gerð í samráði allra aðila sem að málinu koma. Ef til ágreinings kemur um tilfærslu nemanda og reynt hefur verið til þrautar að leysa hann, skal skólastjóri Arnarskóla taka endanlega ákvörðun í samræmi við ákvæði 5. mgr. 17. gr. laga um grunnskóla, sbr. 21. gr.  reglugerðar um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskólum nr. 585/2010. Ákvörðun skólastjóra skal taka tillit til heildarhagsmuna nemandans sem og álits sérfræðinga og foreldra/forráðamanna. Ákvörðun skólastjóra skal tilkynna skriflega hlutaðeigandi aðilum málsins. Ákvörðun skal vera rökstudd og hlutaðeigandi upplýstir um kærurétt skv. 47. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. 

    Arnarskóli

    Hafa samband

    Staðsetning

    Kópavogsbraut 5C,
    200 Kópavogur

    Opnunartímar

    M-F: 8:00 - 16:00
    Helgar : Lokað

    Sími og netfang

    (354) 426-5070
    arnarskoli@arnarskoli.is