Arnarskóli

Kennsla

Kennsla

Markmið skólans er að veita börnum með einhverfu og önnur þroskafrávik heildstætt nám og framúrskarandi þjónustu. Kennsla byggir á aðalnámskrá grunnskóla, lagt er kapp á að nýta sannreynda kennsluhætti og stuðst er við fjölbreytta nálgun í kennslu. Notast er við raunveruleikatengd verkefni (naturalistic teaching approach),  aðgreindar kennsluæfingar með villulausu námi (errorless learning through discrete trials), verkefnagreiningar (task analysis), eftirhermunám, Stýrða kennslu (Direct Instruction) og Hnitmiðaða færniþjálfun (precision teaching), þemaverkefni, þrautalausn og samvinnunám.

Kennsluhættirnir byggja á einstaklingsmiðuðu námi þar sem unnið er út frá þörfum og styrkleikum hvers nemanda þar sem áhugasvið nemenda er nýtt sem hvati. Mikið er því lagt upp úr að aðlaga kennslu að því sem grípur huga nemandans hverju sinni.  Reglulegt mat er gert á árangri kennslunnar og námi nemandans út frá einstaklingsnámsskrá og kennsluhættir endurskoðaðir út frá þessu mati. 

Gerð er einstaklingsnámskrá fyrir hvern nemanda og unnið í samræmi við hana ýmist í einstaklingskennslu eða litlum hópum, allt eftir þörfum og getu hvers nemanda. Lögð er áhersla á samvinnu við foreldra og nemendur við val á markmiðum. Þessi samvinna er til þess að fá skýrari mynd af því hvaða færni er mikilvægast að þjálfa til þess að ýta undir sjálfstæði, færni, ánægju í námi og þátttöku í samfélaginu. 

Kennslutími

Kennslutími tekur mið af því að allir nemendur fái að lágmarki kennslu í samræmi við aðalnámskrá. Skólinn er þó opinn alla virka daga á ári og nemendur geta sótt þjónustu og kennslu fleiri daga en gert er ráð fyrir í aðalnámskrá. Vegna þess að flestir nemendur koma í skólann með ferðaþjónustu fatlaðra þá getur mætingar- og brottfarartími verið nokkuð breytilegur. Dagskipulag er einstaklingsmiðað en flest börn eru að hefja nám milli 8 og 9 á morgnana og frístundarstarf hefst almennt um 14:30, fyrir suma nemendur skiptist þó á nám og frístund allan daginn.

List- og verkgreinakennsla

List og verkgreina kennsla fer fram í og við Arnarskóla, umhverfið allt, fjaran, skógurinn, Rútstún og skólabyggingin sjálf eru nýtt í list og verkgreinakennslu.

Útikennsla

Hluti af kennslu í skólanum fer fram utandyra. Kennslan getur verið hluti af kennslu í athöfnum daglegs lífs, þemaverkefni, stærðfræði eða samfélagsgreinar. Útikennsla er gjarnan nýtt til að flétta saman margvísleg samþætt námsmarkmið.

Útivist

Útivist er að jafnaði tvisvar á dag og almennt taka nemendur þátt í þeirri samveru. Ef nemendur eiga einhverra hluta vegna erfitt með að taka þátt í útivist þá eru fundin önnur uppbyggileg verkefni fyrir nemendur að taka þátt í á þeim tíma. Við Arnarskóla er skólalóð í uppbyggingu, þar eru komnar rólur og opið svæði sem hægt er að leika sér á, til viðbótar við þetta svæði eru opin svæði og leikvellir í nágrenni skólans nýtt í útivist.

Arnarskóli

Hafa samband

Staðsetning

Kópavogsbraut 5C,
200 Kópavogur

Opnunartímar

M-F: 8:00 - 16:00
Helgar : Lokað

Sími og netfang

(354) 426-5070
arnarskoli@arnarskoli.is