Arnarskóli

Inntak kennslu

  1. /
  2. Um Arnarskola
  3. /
  4. Námið
  5. /
  6. Inntak kennslu

Allt nám í Arnarskóla tekur mið af aðalnámskrá grunnskólanna. Í Arnarskóla hefur náminu verið skipt í fjóra yfirþætti sem metnir eru með færnimati ACE (Autism curriculum encyclopedia) ásamt almennu námsmati. Einstaklingsnámskrár nemenda eru mótaðar úr þessum þáttum og fléttast saman við grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá grunnskólanna.

Yfirþættir í námskrá Arnarskóla eru feitletraðir í meðfylgjandi töflu

Hreyfi- og félagsfærni Sjálfhjálp og heilbrigði Þátttaka í samfélagi og frístundir Námsgreinar
Gróf- og fínhreyfifærni Sjálfshjálp Frístundir og hreyfing Íslenska
Hlustun og tjáskipti Heilbrigði og velferð Öryggi, afþreying og að fara um samfélag Stærðfræði
Félagsfærni Færni til fullorðinsára. Sjálfstæð búseta. Vinnufærni Enska
      Samfélagsfræði
      Heimilisfræði
      Hönnun/smíði
      Upplýsinga og tæknimennt
      Textílmennt
      Tónmennt
      Íþróttir
      Myndmennt

Yfirþættir Arnarskóla og grunnþættir menntunar

Yfirþættir í námskrá Arnarskóla fléttast inn í grunnþætti menntunar á margvíslegan hátt. Að neðan er gróft yfirlit yfir hvernig þættirnir fléttast saman og nánari lýsing er í texta.

 

 

Sjálfbærni

Unnið er eftir grunnþætti menntunar um sjálfbærni með margvíslegum hætti. Rík áhersla er á að kenna og þjálfa nemendur í sjálfshjálp og því að njóta með sjálfstæðum hætti þeirra lífsgæða sem vinna, tómstundir og almenn afþreying getur veitt nemendum. Þessi kennsla miðar að því að nemendur séu sjálfbærir og sjálfstæðir eins og unnt er til framtíðar. 

Nemendur fá einnig kennslu, þjálfun og fræðslu í samræmi við getu í að takast á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni daglegs lífs.  Þessi kennsla fer fram í gegnum þemaverkefni, morgunstundir og daglegt líf í skólanum. Nemendur kynnast þannig lýðræðislegum vinnubrögðum og fá með þeim hætti að hafa áhrif á þau viðfangsefni og ákvarðanir sem teknar eru í skólanum. Arnarskóli leggur áherslu á endurnýtingu og umhverfisvæna starfshætti, ásamt fræðslu um mikilvægi slíkra lifnaðarhátta bæði í kennslu og almennu starfi skólans.

Lýðræði og mannréttindi

Skólastarf í Arnarskóla byggir á lýðræðislegum starfsháttum þar sem nemendur geta haft áhrif á verkefnaval, þemavinnu og daglegt starf í samræmi við eigin getu. Með þessum starfsháttum er lögð áhersla á að nemendur læri að virða skoðanir annarra en á sama tíma læri að hafa áhrif á umhverfi sitt með jákvæðum hætti. Rík áhersla er á að læra jákvæðar leiðir til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og óska eftir þeim breytingum sem nemendur vilja hafa á nærumhverfi sitt. Nemendur fá þjálfun í því að ferðast um bæjarfélagið og nærumhverfi, nýta sér samgöngur og taka þátt í samfélagslegum verkefnum eða athöfnum. Með þessum hætti er stuðlað að því að nemendur þekki og skilji það lýðræðisþjóðfélag sem börnin búa í og búi yfir færni til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu í samræmi við eigin getu.

Heilbrigði og velferð

Arnarskóli leggur grunn að líkamlegri, félagslegri og andlegri velferð nemenda sinna með marvíslegum hætti. Marvisst er unnið að því að auka og efla getu nemenda til þess að þekkja og tileinka sér heilbrigða lífshætti. Þessi þjálfun fléttast með markvissum hætti inn í einstaklingsnámskrár allra nemenda. Einnig er hreyfigeta metin og þjálfuð í daglegu starfi skólans og fer sú þjálfun fram bæði í hreyfistundum og í almennum kennslustundum. Allir nemendur fá einstaklingsmiðaða kynfræðslu, félagsfærniþjálfun og þjálfun í að þekkja og forðast helstu hættur í umhverfi sínu. Að auki við einstaklingsmiðaða kennslu og þjálfun þá byggir Arnarskóli starf sitt á almennri áherslu á heilbrigði og velferð þar sem hollt matarræði og hreyfing er fléttuð inn í daglegt skólastarf. Til að stuðla að vellíðan nemenda byggja allir kennsluhættir og þjálfun á sannreyndum, uppbyggilegum kennsluaðferðum þar sem hvatning, hrós og aðrar jákvæðar leiðir eru nýttar til að efla færni nemenda.  

Jafnrétti

Arnarskóli leggur áherslu á umburðarlyndi gagnvart ólíkri fötlun, menningu, kynhneigð, lífsskoðunum, trúarbrögðum, þjóðerni og margbreytileika almennt. Þessar áherslur endurspeglast í umræðu og fræðslu ásamt því að efla alla nemendur í virkri þátttöku í nútíma þjóðfélagi, óháð bakgrunni þeirra eða stöðu. Allir nemendur fá jöfn tækifæri til þess að taka þátt í skólastarfinu og fá jöfn tækifæri til þess að hafa áhrif á skipulag námsins í samræmi við getu. 

Sköpun

Nemendur í Arnarskóla fá tækifæri til þess að örva ímyndunarafl sitt og skapa með margvíslegum hætti í daglegu starfi skólans. Morgunstundir, þemaverkefni, listgreinar og tónlistartímar byggja á skapandi vinnu nemenda og á því að nemendur fái færi á að búa til og skapa með ólíkum hætti daglega. Einnig fá nemendur tækifæri til þess að vinna námsverkefni með margvíslegum hætti og skila frá sér á skapandi máta, til dæmis með frásögn, myndum, leikrænni tjáningu, dansi, myndbandagerð eða öðrum leiðum sem hæfa getu nemenda og því verkefni sem verið er að vinna. Reynt er að stuðla að frumkvæði, sjálfstæði og frumleika í skapandi skilum nemenda á námslegum verkefnum.

Arnarskóli

Hafa samband

Staðsetning

Kópavogsbraut 5C,
200 Kópavogur

Opnunartímar

M-F: 8:00 - 16:00
Helgar : Lokað

Sími og netfang

(354) 426-5070
arnarskoli@arnarskoli.is