Arnarskóli

Móttökuáætlun nýrra nemenda

  1. /
  2. Um Arnarskola
  3. /
  4. Skipulag
  5. /
  6. Skýrslur og áætlanir
  7. /
  8. Móttökuáætlun nýrra nemenda

Móttökuáætlun nemenda byggir á innritunarreglum Arnarskóla.

  • Skólinn tekur á móti umsóknum allan ársins hring í gegnum skráningarform af heimasíðu skólans og foreldrar/forráðamenn skila inn umsókn til síns sveitarfélags eftir verklagi sveitarfélags.      
  • Skólinn er opinn börnum með einhverfu eða önnur þroskafrávik sem þurfa einstaklings-kennslu og/eða stuðning stóran hluta dagsins til þess að læra og dafna.  
  • Inntökuteymi skólans metur hverja umsókn í samvinnu við fræðsluyfirvöld í sveitarfélagi nemandans. Sérstaklega er horft til þess hvort skólinn geti mætt þörfum nemandans með þeirri þjónustu sem hann býður upp á. Umsóknir eru metnar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og mati fulltrúa skólans á nemandanum.    

Eftirfarandi skjöl þurfa að fylgja umsóknum um skólavist í skólanum:   

  • Útfyllt umsókn   
  • Umsagnir frá öðrum skólum/stofnunum   
  • Greiningar frá viðurkenndum sérfræðingum/stofnunum   

Inntökuferli: 

  • Útfyllt umsóknarform berst skólanum ásamt fylgiskjölum, þar með töldu upplýstu samþykki foreldra/forráðamanna fyrir frekari upplýsingaöflun.    
  • Umsækjendur koma í viðtal og fá kynningu á skólanum.    
  • Starfsmaður skólans fer í leikskóla/skóla nemanda, ræðir við nemandann (ef þess er kostur), fylgist með honum við leik og störf og aflar upplýsinga frá starfsmönnum þar.   
  • Inntökuteymi skoðar fyrirliggjandi gögn og fjallar um umsóknina, kallar eftir frekari gögnum ef þörf krefur og afgreiðir umsókn í samráði við fulltrúa fræðsluyfirvalda í sveitarfélagi nemandans.  
  • Niðurstaða teymis byggir á fyrirliggjandi gögnum, viðtölum og vettvangsathugunum að teknu tilliti til laga um grunnskóla nr. 91/2008 með hagsmuni nemandans að leiðarljósi.   
  • Ef umsóknir eru fleiri en laus pláss í Arnarskóla er við forgangsröðun meðal annars tekið tillit til stuðningsþarfa nemanda, félagslegrar stöðu og hvenær umsókn barst. 
  • Afgreiðsla umsóknarinnar skal kynnt umsækjendum.  Ef umsókn er synjað eftir ofangreint inntökuferli eru foreldrar/forráðamenn upplýstir um að hægt sé að óska eftir frekari rökstuðningi inntökuteymis og þeim gefinn kostur á að tjá sig um synjunina. Ef umsókn er synjað eftir rökstuðning foreldra/forráðamanna skulu þeir upplýstir um kærurétt skv. 47. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. 

Ef nemandi fær inngöngu í  Arnarskóla er móttökuáætlun (í samræmi við reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010) á þessa leið:    

  • Heimsóknir til nemandans og/eða heimsóknir umsækjanda í Arnarskóla eru skipulagðar í samráði við þá sem best þekkja til hans og starfsfólks Arnarskóla.   
  • Skilafundur er haldinn um stöðu nemandans með aðilum frá þeim skóla sem nemandinn kemur, starfsmönnum Arnarskóla og öðrum þeim sem rétt þykir að boða.   
  • Ráðstafanir eru gerðar varðandi hjálpartæki og aðbúnað sé þess þörf.    
  • Teymi fyrir nemandann er skipulagt og tryggt að allir fái nauðsynlegar upplýsingar um nemandann.   
  • Í fyrstu viku nemandans í Arnarskóla er aðlögun og samráðsfundir með foreldrum/forráðamönnum.   
  • Gert er ráð fyrir því að gerð einstaklingsáætlunar verði lokið eigi síðar en 6 vikum eftir að nemandi hefur skólagöngu í Arnarskóla. Einstaklingsnámskrá skal unnin í samvinnu við nemandann, foreldra/forráðamenn hans og með tilliti til styrkleika hans og þarfa og þess sem unnið var með í þeim skóla/leikskóla sem nemandinn kemur frá. Í einstaklingsnámskrá verður gerð grein fyrir því hvernig staðið skuli að stuðningi til náms, félagslegrar þátttöku og námsmati.   

Arnarskóli

Hafa samband

Staðsetning

Kópavogsbraut 5C,
200 Kópavogur

Opnunartímar

M-F: 8:00 - 16:00
Helgar : Lokað

Sími og netfang

(354) 426-5070
arnarskoli@arnarskoli.is